Hinar sívinsælu sumarbúðir Timburmanna hefjast í dag, sem kunnugt er. Þá munu Timburmenn allra landa sameinast og sinna grunnþörfum sínum. Þ.e.a.s. að væta kverkar og vera með almennt vesen!
Grunnhöfðingi búðanna, Eyjólfur Harkan, segir að allt sé tilbúið að Apastöðum, en þar hafa þessar sumarbúðir verið haldnar um árabil. Ekki er sjálfgefið að hægt sé að halda þessar sumarbúðir á sama stað árlega, þar sem Timburmenn taka oftast vel á því, og langan tíma getur tekið að endurbyggja staðinn.
“Jú okkur tókst að endurbyggja klúbbhúsið, sem brann jú til grunna síðast, einnig erum við að leggja lokahönd á að endurtyrfa golfvöllinn eftir síðasta Timbur-mót sem þar var haldið, en þar spiluðu menn svo sannarlega rassinn úr buxunum!”
Á dagskrá sumarbúðanna í ár verða nokkrar nýjungar ásamt auðvitað gömlum og góðum dagskrárliðum. Koníakshlaupið er auðvitað árviss viðburður, en nú verður t.d. boðið upp á Baileys-boccia, Gin-golf, Razz-rugby, Sex on the beach, og að sjálfsögðu skák. – Kunnugir segja að það sé ekkert víst að þetta klikki!
